Fréttaskýring: Horfurnar verri en áætlað hafði verið

mbl.is/Ómar

Við höfum fengið margar fyrirspurnir frá nemendum og það er ekki okkar tilfinning að staðan sé verri hjá nemendum sem eru styttra komnir í námi en þeim sem eru lengra komnir. Almennt virðist staðan vera slæm, sem er auðvitað alvarlegt,“ segir Hildur Björnsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, um atvinnuhorfur hjá háskólanemum.

Útlit er fyrir að þúsundir nema verði í vandræðum með að fá vinnu í sumar. Í könnun sem Stúdentaráð gerði meðal 3.500 háskólanema dagana 9. til 23. mars kemur fram að rúmlega 64 prósent þeirra sem spurðir voru segjast ekki vera með vinnu í sumar og 75 prósent af þeim telja ekki líklegt að nokkur vinna verði í boði. Samtals eru það rúmlega 9.700 stúdentar miðað við heildarfjölda, að því er fram kemur í könnun Stúdentaráðs. „Við [í Stúdentaráði innsk. blm.] höfum lengi talað um að alvarlegt ástand kunni að skapast hjá háskólanemum. Okkur fannst ekki nægilega tekið tillit til okkar sjónarmiða og þess vegna var þessi könnun gerð og niðurstöður hennar sýna að staðan er mjög alvarleg. Við höfum talað fyrir því að það verði boðið upp á sumarannir í háskólum og vonandi verður það gert,“ segir Hildur.

Háskólaráð mun á morgun ræða hvernig staðið verður að námi við Háskóla Íslands, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands.

Verri horfur nú en áætlað var

Atvinnuhorfur í landinu eru nú nokkru verri en áætlað var samkvæmt efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). Samkvæmt henni var því spáð að atvinnuleysi yrði mest um tíu prósent, eftir að fólk úr skólum kæmi út á vinnumarkaðinn að loknum skóla. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar er atvinnuleysi nú rúmlega tíu prósent en þar af eru um 20 prósent í hlutastarfi á móti bótagreiðslu. Ljóst er því að staðan eftir að nemar koma út á vinnumarkaðinn úr skólunum verður verri en reiknað hafði verið með.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir fyrirtæki mörg hver eiga í erfiðleikum og það muni bitna á sumarráðningum. „Það hefur ekki verið kannað sérstaklega á okkar vegum hvort fyrirtæki ætli að minnka við sig í sumarráðningum. Það liggur hins vegar fyrir að fæst fyrirtæki eru að fjölga í sínum röðum og þá eru fyrirtæki sem á hverju sumri hafa ráðið marga sumarstarfsmenn, til dæmis í byggingariðnaði, í miklum vanda núna. Þau ráða ekki marga í sumar,“ segir Hannes.

Hann bendir á að fyrirtæki muni, þrátt fyrir erfiðleika, þurfa að ráða fólk í afleysingastörf vegna sumarleyfa. Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem á sæti í menntamálaefnd Alþingis, fór fram á það á fundi nefndarinnar í gær að fulltrúar háskólanna í landinu og fulltrúar frá námsmannahreyfingum verði kallaðir á fund til að ræða vandann sem blasir við. „Það er nauðsynlegt að fá öll sjónarmið fram um þessi mál, þar sem um grafalvarlegt mál er að ræða. Það væri hörmulegt ef ungt fólk í skólum fengi enga viðspyrnu, hvorki í skóla né vinnu,“ segir Einar.

Óvissan enn mikil

Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) hefur þegar sett af stað vinnu til þess að kanna stöðu framhaldsskólanema á atvinnu fyrir sumarið. Ómar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri SÍF, segir málið hafa borið á góma á fulltrúafundi nemendafélaga 28. febrúar sl. „Þetta hefur verið rætt og við stefnum að því að kanna jarðveg hjá framhaldsskólanemum á allra næstu dögum og vikum,“ segir Ómar Örn.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru rúmlega 29 þúsund nemar í framhaldsskólum á síðasta ári, þar af um 22 í dagskóla. Í háskóla voru um 18 þúsund í fyrra, þar af rúmlega 14 þúsund í dagskóla. Óvissan um hversu margir nemar eru án vinnu í sumar er mikil, en ljóst er að þúsundir hafa ekki enn fengið vinnu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert