Kristján Þór Júlíusson lýsti yfir miklum vonbrigðum með þær upplýsingar eða öllu heldur skort á upplýsingum frá fjármálaráðherra og ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins á opnum fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun.
Það væri óásættanlegt að þingið fengi ekki að sjá þær upplýsingar sem ríkisstjórnin hefði látið fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í té. Þess í stað yrði þingið að bíða þangað til gjaldeyrissjóðurinn birti þessar upplýsingar þegar honum þóknaðist, líklega um miðjan apríl, 10 dögum áður en gengið verður til kosninga. "Hvurslags framkoma er þetta," sagði Kristján Þór og skoraði á Steingrím að opinbera upplýsingarnar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fengið til að stjórnmálaflokkar geti lagt fram hugmyndir sínar á grundvelli þeirra.