Mikill verðmunur á páskaeggjum

Páskaegg
Páskaegg mbl.is/Ásdís

Mikill munur er bæði á verði og úrvali á páskaeggjum milli verslana, eins og fram kemur í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu mánudaginn 30. mars. Mesti verðmunur í könnuninni reyndist vera tæp 60% á páskaeggi nr. 1 (21 g) frá Freyju. Það var ódýrast í Bónus, kr. 89, en dýrast í Samkaupum Strax, kr. 142.

Á 14 af 28 páskaeggjum var yfir 40% verðmunur á hæsta og lægsta verði og í fimm tilvikum var yfir 30% verðmunur.

Tæplega 53% verðmunur var á páskaeggi nr. 4 (340 g) frá Nóa-Síríusi sem var ódýrast í Krónunni, kr. 909, og dýrast í Ellefu-ellefu, kr. 1.389.

Góu-páskaegg nr. 4 (325 g) var ódýrast í Bónus, kr. 785, en dýrast í Hagkaupum, kr. 1.199, sem er tæplega 53% verðmunur.

Verðið oftast lægst í Bónus

Flest eggin í könnuninni voru fáanleg í verslun Kaskó eða 26 af 28. Í Fjarðarkaupum voru 25 tegundir fáanlegar. Fæst egg voru fáanleg í Tíu-ellefu, 10 talsins, og í Samkaupum Strax voru 13 tegundir fáanlegar.

Freyja býður 300 g páskaegg án sykurs og án mjólkur. Þessi egg voru ódýrust í Bónus, kr. 1.198, en dýrust í Samkaupum-Úrvali og Hagkaupum á kr. 1.699. Verðmunurinn er 42%.

Verðkönnunin tók til algengra páskaeggja frá íslenskum framleiðendum sem fengust að jafnaði í flestum verslunum. Til eru fleiri tegundir af páskaeggjum á markaðnum sem verðkönnunin tekur ekki yfir, þar með talin páskaegg sem framleidd eru sérstaklega fyrir ákveðnar verslanir.

Könnunin var gerð í eftirfarandi verslunum: Bónus Holtagörðum 59, Krónunni Granda, Kaskó Vesturbergi 76, Nettó í Mjódd, Fjarðarkaupum Hólshrauni 1b Hf., Hagkaupum Skeifunni 15, Nóatúni Nóatúni 17, Samkaupum-Úrvali Miðvangi 41 Hf., Gripið, Tíu ellefu Borgartúni 26, Ellefu-ellefu Skúlagötu 13 og Samkaupum-Strax Stigahlíð 45-47.

Aðeins var um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert