„Það er okkar mat að öryggi íbúa á Þórshöfn og í Þistilfirði sé ógnað. Það er ekki lengur hægt að tala um bráðaþjónustu hér. Það eru 64 kílómetrar í næsta sjúkrabíl á Raufarhöfn og þessi leið er oft illfær. Það eru því að lágmarki 40 til 45 mínútur í sjúkrabíl. Ástandið er því mjög alvarlegt,“ segir Konráð Jóhannsson, fyrrverandi sjúkraflutningamaður á Þórshöfn.
Allir sjúkraflutningamenn Þórshafnar hættu störfum á miðnætti. Þeir líta svo á að heilbrigðisstofnun Þingeyinga hafi sagt upp samningum með breytingum á vaktafyrirkomulagi.
Síðastliðin tvö og hálft ár hefur verið greitt fyrir 1,75% stöðu sjúkraflutningamanna á Þórshöfn. Tveir menn hafa því alltaf verið á vakt og farið saman í útköll sem upp hafa komið. Fimm til sex manns hafa skipt með sér sjúkraflutningavöktunum en að meðaltali kemur útkall einu sinni í viku.
Eftir að kreppan skall á var gerð krafa um verulegan sparnað hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Meðal þess sem ákveðið var að skera, var önnur tveggja vakta sjúkraflutningamanna. Frá áramótum var önnur vaktin lögð af. Sjúkraflutningamenn sögðust ekki sjá sér fært að sinna sjúkraflutningum þegar aðeins einn maður er á vakt. Þá litu þeir á það sem uppsögn starfssamnings að vaktin skyldi lögð af en unnu lögbundinn þriggja mánaða uppsagnarfrest.
Þrátt fyrir samningaumleitanir náðist ekki samkomulag. Vakt þeirra lauk því á miðnætti og eru nú engir sjúkraflutningamenn starfandi í Langanesbyggð.
Kostnaður við aðra vakt sjúkraflutningamanns á Þórshöfn er um 1.600 þúsund krónur ári eða rúmar 130 þúsund krónur á mánuði. Konráð Jóhannsson segir mikinn kurr í íbúum Langanesbyggðar vegna niðurskurðarins.
„Við erum bæði sárir og reiðir hér, sjúkraflutningamenn og íbúar. Ekki þó við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga heldur við fjárveitingavaldið fyrir sunnan sem ekki virðist skilja stöðuna. Mér er sem ég sjái borgarbúa sætta sig við að þurfa að bíða 40 til 45 mínútur hið minnsta eftir sjúkrabíl. Ætli það líði meira en 5 til 7 mínútur frá útkalli þar til sjúkrabíll er kominn og meðaldvalartími sjúklings í sjúkrabíl í borginni er 12 mínútur. Hjá okkur er um langar vegalengdir að ræða. Það eru 200 kílómetrar rúmir til Húsavíkur og 300 kílómetrar til Akureyrar. Ég hef lent í 27 klukkustunda útkalli. Aðstæður hér geta verið það erfiðar vetur og vor og ég vildi ekki lenda einn í slíku útkalli,“ segir Konráð Jóhannsson.
Hreppsnefnd kallar eftir auknum fjárveitingum
Hreppsnefnd Langanesbyggðar hefur ítrekað fjallað um málið. Í bókun hreppsnefndar í febrúar er því beint til heilbrigðisráðherra að hann beiti sér fyrir því nú þegar að fjárveitingar til stofnunarinnar verði
leiðréttar þannig að tryggja megi grunnþjónustustarfsemi á öllu starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga.
Þá segir að nú sé svo komið að aðeins sé gert ráð fyrir hálfri stöðu hjúkrunarfræðings, einni stöðu læknis, ljósmóður í hluta starfi, er einnig sinnir ungbarnaeftirliti, og einni stöðu sjúkraflutningsmanns við stöðina á Þórshöfn.
„Samkvæmt upplýsingum er hreppsnefnd hafa borist til eyrna stendur til að skerða þessa takmörkuðu þjónustu enn frekar þannig að einungis verði starfandi tveir heilbrigðisstarfsmenn við stöðina hverju sinni. Til að uppfylla lágmarkskröfur um þjónustu á Þórshöfn og næsta nágrenni þarf að tryggja nægilegt fjármagn til að standa undir heilli stöðu hjúkrunarfræðings í stað hálfrar í dag og að ávalt verði tveir sjúkraflutningamenn á vakt í stað eins í dag,“ segir í bókun hreppsnefndar Langanesbyggðar.