Stjórnendur Akureyrarbæjar hafa kynnt hugmyndir þess efnis að starfsmenn bæjarfélagsins taki einn launalausan frídag í mánuði frá og með næsta ári. Með því er stefnt að því að spara 150-200 milljónir króna á árinu en fyrirsjáanlegur halli á rekstri Akureyrarbæjar 2010 ári er 450 milljónir króna.
Að sögn Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, bæjarstjóra, og Hermanns Jóns Tómassonar, formanns bæjarráðs, verður hverjum steini velt við í því skyni að ná fram sparnaði í rekstri bæjarins. Mikið hefur þegar verið gert til þess að spara en meira þarf til. Þau leggja áherslu á þær hugmyndir sem hér um ræðir séu einmitt hugmyndir - ekkert hafi verið ákveðið. „Við viljum efna til samræðna við fólk um málið. Það er nauðsynlegt að draga úr kostnaði. Við erum komin alveg inn að beini,“ sagði Sigrún. Allt verði hins vegar gert til þess að koma í veg fyrir uppsagnir starfsmanna. „Við erum í raun að taka fyrstu skrefin að þjóðarsátt,“ sagði hún og lagði þannig áherslu á að svona nokkuð þyrfti að ræða um allt land.
Starfsmenn Akureyrarbæjar eru 1.400. Ef allir tækju einn launalausan dag í mánuði væri hægt að spara 250 milljónir, en sumir vinnustaðir eru þess eðlis að ekki er hægt að ætlast til þess að fólk taki frí. Því er gert ráð fyrir því að hægt verði að spara 150-200 milljónir með þessum hætti.
Í morgun voru 70 stjórnendur hjá bænum boðaðir til fundar þar sem hugmyndirnar um einn launalausan frídag í mánuði voru kynntar. Þeir kynna starfsfólki þessar hugmyndir og stefnt er að fundi bæjaryfirvalda og stjórnendanna 70 aftur 15. apríl.