Stjórnarskrárfrumvarp úr nefnd

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn

Frumvarp um breytingar á stjórnarskránni var afgreitt úr sérnefnd um stjórnarskrármál á Alþingi í dag með 5 atkvæðum gegn fjórum atkvæðum Sjálfstæðisflokksins. Útlit er fyrir harðar deilur um málið þegar það kemur til 2. umræðu á Alþingi síðar í vikunni.  

Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðiflokks, tók málið upp í umræðu um störf þingsins, og sagði að sá óvenjulegi atburður hefði orðið í sérnefndinni, að tillögur um stjórnarskrárbreytingar hefðu verið afgreiddar í ágreiningi. Væri þetta í þriðja skipti í lýðveldissögunni, sem slíkt gerðist.

Björn sagðist hafa metið umræðurnar á fundi nefndarinnar í morgun þannig,  að hægt hefði verið að ná samkomulagi um málið. En úr því það hefði ekki verið  reynt væri útlit fyrir að harðar deilur yrðu um málið í þingsalnum.

Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður sérnefndarinnar, mótmælti orðum Björns um að minnihlutinn í nefndinni hefði gert ítrekaðar tilraunir til að ná samkomulagi. „Það var alls ekki þannig," sagði hún.

Sagði Valgerður að það hefði fyrst verið á 11. fundi nefndarinnar, sem var í morgun, sem það hefði verið orðað hvort hægt yrði að ná samkomulagi en það hefði verið of seint. Viðræður í tveggja manna tali eða í minni hópum hefðu heldur ekki skilað neinu. Þá hefðu nefndarmenn neitað að taka þátt í óformlegum viðræðum um málið.  Því hefði ekki verið um annað að ræða en að taka málið út úr nefndinni.

Meirihluti nefndarinnar hefur gert ýmsar breytingatillögur við frumvarpið og sagði Valgerður, að þeim væri öllum ætlað að koma til móts við sjálfstæðisflokkinn.

Valgerður sagðist ekki efast um, að sjálfstæðismenn ætli í málþóf í umræðu um frumvarpið. Það væri hins vegar annað mál hvort það yrði þeim til framdráttar í kosningabaráttunni.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka