„Það eru allar líkur á að leggja þurfi Atvinnuleysistryggingasjóði til aukið fé undir lok þess árs. Það verður að sjálfsögðu gert, við munum ekki láta sjóðinn lenda í vandræðum með greiðslu atvinnuleysisbóta,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra á opnum fundi fjárlaganefndar.
Atvinnuleysið hefur vaxið hröðum skrefum og bendir flest til að atvinnuleysistryggingasjóður tæmist á síðustu mánuðum þessa árs.
Í dag eru samtals 17.782 skráðir atvinnulausir á vef Vinnumálastofnunar, 11.301 karl og 6.481 kona.
Ásta Möller, þingmaður Sjálfstæðisflokks benti á opnum fundi fjárlaganefndar á að auk þeirra 18 þúsunda sem væru atvinnulausir, myndu um 13 þúsund ungmenni koma á vinnumarkaðinn í sumar. Þetta gerðist á sama tíma og niðurbrot fyrirtækja héldi áfram.
Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi um 1.700 milljónir króna út í janúar en greiddi að meðaltali 260 milljónir á mánuði í fyrrasumar. Atvinnuleysið hefur vaxið umtalsvert frá í janúar með tilheyrandi útgjaldaauka.
Um áramót hafði sjóðurinn úr að spila um 21 milljarði króna. Ef miðað er við 7% atvinnuleysi á þessu ári mun sjóðurinn geta staðið undir greiðslum atvinnuleysisbóta. Samkvæmt spám mun atvinnuleysið þó verða mun meira eða allt að 10%.
Talið er að hvert prósentustig atvinnuleysis kosti 3,1 milljarð á árinu 2009 og heildargreiðslur atvinnuleysisbóta gætu orðið vel á þriðja tug milljarða króna.