Næsta útborgun úr Atvinnuleyisstryggingasjóði verður í dag, 1. apríl. Þá verða greiddir út tæpir tveir milljarðar króna til um 15 þúsund einstaklinga. Greiðslustofa Vinnumálastofnunar á Skagaströnd annast greiðslurnar og segir Líney Árnadóttir forstöðukona að allt kapp verði lagt á að greiðslurnar berist fólki án tafa.
Greiðslustofan er rekin innan Vinnumálastofnunar Norðurlands vestra. Í byrjun vetrar störfuðu 11 manns við Greiðslustofuna en vegna gríðarlegs álags að undanförnu hefur þeim verið fjölgað í 21. Jafnframt var tekið í notkun viðbótarhúsnæði. Líney segir að þrátt fyrir gríðarlegt álag hafi að mestu tekist að koma umsækjendum inn í greiðslukerfið á viðunandi tíma. Framundan sé síðan að þjónusta þann fjölmenna hóp sem er án atvinnu.
Greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði hafa vaxið hröðum skrefum í takt við stóraukið atvinnuleysi. Sjóðurinn greiddi út 1.600-1.700 milljónir í janúar og nálægt tveimur milljörðum í febrúar. Sjóðurinn greiddi út að meðaltali 260 milljónir á mánuði í fyrrasumar. Sjóðurinn hefur til ráðstöfunar um 21 milljarð á þessu ári og svo kann að fara, að hann verði tæmdur í lok þessa árs.
Í gær var 17.721 einstaklingur skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun. Af þeimi hópi má ætla að rúmlega 3.000 séu í hlutastörfum og fái hlutabætur á móti .
Alþingi hefur samþykkt frumvarp Ástu R. Jóhannesdóttur félags- og tryggingamálaráðherra um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Með lögunum er gildistími bráðabirgðaákvæðis um heimildir til að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli launamanna framlengdur til 31. desember 2009. Gildistími bráðabirgðaákvæðis um heimildir sjálfstætt starfandi einstaklinga til að taka að sér tilfallandi vinnu þrátt fyrir að fá greiddar atvinnuleysisbætur var einnig framlengdur til 31. desember 2009.