Þingmenn spýttu í lófana í gærmorgun og samþykktu að halda áfram umræðum og atkvæðagreiðslum fram yfir miðnætti til að flýta fyrir þingstörfum. Þingfundur stóð til klukkan 00:16 en þingið afgreiddi hert gjaldeyrislög skömmu fyrir miðnætti.
Nokkur frumvörp potuðust áfram, bæði í nefndum og í umræðum en eftir að frumvarp um hert gjaldeyrishöft var lagt fram var dagskrá þingsins að öðru leyti frestað, þ. á m. umræðu um frumvarp um greiðsluaðlögun húsnæðislána. Mikil óvissa er um hvenær þingstörfum lýkur og veltur mikið á því hvaða stefnu umræður um breytingar á stjórnarskránni taka á næstu dögum.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í síðustu viku að 38 mál þyrftu að komast í gegnum Alþingi fyrir þinglok, þar af væru 22 sem þyrftu nauðsynlega að vera samþykkt. Þegar rennt er yfir þennan lista sést að mörg af „nauðsynlegu“ málunum hafa þegar verið samþykkt og önnur eru komin á góðan rekspöl, þ.e. í 2. eða 3. umræðu á þinginu.
Framsóknarmenn leggja mikla áherslu á að samþykkt verði að efna til stjórnlagaþings. Siv Friðleifsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, sagðist í gær binda vonir við að samkomulag næðist um stjórnarskrármálið. Á þessu stigi væri þó erfitt að spá fyrir um framvindu málsins. Hugsanlega gæti þingstörfum þó lokið „öðru hvorum megin við helgi“.
Jón Bjarnason, þingflokksformaður Vinstri-grænna, vildi engu spá um þinglok. Þingstörfin hefðu algjöran forgang í þessu ástandi sem hefði skapast í þjóðfélaginu og ef þurfa þætti mætti halda áfram fram yfir páska.
Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði að sér kæmi ekki á óvart þótt þingstörf myndu halda áfram talsvert fram í næstu viku.