Öllum börnum verður tryggður aðgangur að skólamáltíðum og unnið verður að því að bæði háskólar og menntaskólar bjóði upp á sumarnám í ár vegna vaxandi atvinnuleysis.
Þetta er meðal aðgerða sem Ásta R. Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, kynnti sem hluta af velferðaráætlun ríkisstjórnarinnar í gær. Áætlunin er byggð á skýrslu Velferðarvaktarinnar, stýrihóps sem skipaður var í febrúar til að gera úttekt á velferðarmálum í kjölfar kreppunnar. Afleiðingar kreppunnar eru að mati Velferðarvaktarinnar vart komnar í ljós ennþá gagnvart einstaklingum og fjölskyldum, t.d. hvað varðar heilsufar.
Hins vegar hefur huglægur vandi gert vart við sig hjá öllum kynslóðum að sögn Láru Björnsdóttur, formanns Velferðarvaktarinnar, og birtist hann í óvissu og öryggisleysi. Forvarnir eru því mikilvægur þáttur í velferðaráætluninni og verður mynduð n.k. „úrræðakeðja“ sem miðar að því að hjálpa þeim sem eru í mestum vanda nú þegar, aðstoða þá sem eru líklegir til að lenda í vanda síðar og styðja við þá sem geta spjarað sig í kreppunni.
Ásta lagði hins vegar áherslu á að áætlunin fæli ekki í sér loforð um aukin fjárútgjöld eða kraftaverk, heldur þyrfti sérstaklega að gæta þess „að sparnaður í einum hluta hins opinbera kerfis leiði ekki til aukins kostnaðar annars staðar“.