Verktakar fram fyrir skólabörn

Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi VG segir borgaryfirvöld hygla byggingaverktökum á kostnað skólabarna í endurskoðaðri fjárhagsáætlun borgarinnar. Segja þurfi kennurum upp störfum þar sem skera á niður viðbótakennslu fyrir börn í 2 til 4 bekk grunnskóla og fyrirsjánleg séu stórhækkuð leikskólagjöld.

Aðgerðarhópur minnihluta og meirihluta borgarstjórnar leitaði til starfsmanna borgarinnar til að fá tillögur að sparnaði upp á 2,3 milljarða vegna efnahagsástandsins. Alls bárust um fimmtánhundruð tillögur. Óskar Bergsson formaður borgarráðs bendir á að almenn sátt hafi verið um þessa tilhögun. Niðurstöðurnar séu auk þess ánægjulegar. Velferðarsviði sé til að mynda hlíft og niðurskurðurinn á viðbótarkennslu sé óverulegur og börnum sé tryggð gæsla á móti.

Fulltrúar minnihlutans segjast hinsvegar ekki hafa fengið að sjá hver kom með hvaða niðurskurðartillögur. Svandís segir borgaryfirvöld skýla sér bakvið starfsmenn og segist vilja hitta þá kennara sem hafi lagt til hækkun leikskólagjalda eða minni kennslu.

Hækkuð leikskólagjöld barna sem dvelja meira en átta tíma á leikskólum eiga að skila borgaryfirvöldum tæpum 300 milljónum. Borgin hefur fallist á að greiða byggingaverktökum fimmhundruð milljónir í verðbætur vegna kreppunnar. Svandís Svavarsdóttir segist hafa lagst eindregið gegn þessu enda sé ekkert slíkt endurskoðunarákvæði í samningum við verktakana. Greinilegt sé að borgaryfirvöld taki hagsmuni verktaka fram yfir hagsmuni barna.  

Óskar Bergsson segir hinsvegar að ekki hafi verið komist hjá því að greiða bæturnar og forða þannig borginni frá málaferlum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert