6.700 umsóknir hjá Nýja Kaupþingi

Nýja Kaupþingi hafa borist 6.700 umsóknir um fyrirframgreiðslur úr séreignarsjóðum í rekstri bankans. Um 81.000 sjóðfélagar eiga rétt á fyrirframgreiðslum. Frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir að inna fyrstu greiðslur af hendi 20. apríl nk. og lítur ekki út fyrir annað en að sú tímasetning standist, samkvæmt upplýsingum bankans.

Fyrr í dag kom fram að Almenna lífeyrissjóðnum tókst ekki að inna af hendi fyrstu fyrirframgreiðslu séreignarsparnaðar. Í tilkynningu sjóðsins sagði að fjöldi umsókna hafi verið slíkur að ekki hafi tekist að vinna úr þeim. Um 2000 umsóknir bárust Almenna lífeyrissjóðnum og er stefnt að útgreiðslu fyrir páska.

Tilkynna þarf allar greiðslur til Ríkisskattstjóra sem hefur eftirlit með að einstaklingar geti ekki tekið út hærri fjárhæð en lög heimila. Hámarksfjárhæð fyrirframgreiðslu er 1 milljón króna fyrir skatt eða 628 þúsund eftir skatt og greiðist upphæðin út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á 9 mánuðum. Lægri fjárhæð dreifist á hlutfallslega styttri tíma. Einstaklingur sem á rétt á endurgreiðslu einnar milljónar fær því greiddar tæpar 70 þúsund krónur á mánuði í níu mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert