„Það er mjög brýnt að fá lyktir í þetta mál og ganga frá þeim bótum sem eru ásættanlegar í þessu máli. Ég held að það sé hægt að ljúka þessu með öðrum hætti heldur en frá var gengið í nefndinni,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra í svari sínu við fyrirspurn Grétars Mar Jónssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins. Himinn og haf er milli hugmynda stjórnvalda og hugmynda Breiðavíkursamtakanna um upphæðir bóta til handa Breiðavíkurdrengjunum.
Grétar Mar Jónsson spurði um bætur til Breiðavíkurdrengjanna og hvort gengið yrði frá málinu fyrir kosningar 25. apríl. Grétar sagði málið svartan blett á íslensku samfélagi, sem ætti að sjá sóma sinn í að klára málið og greiða drengjunum bætur.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra tók undir það og sagði brýnt að ljúka málinu sem fyrst.
„Við höfum átt fund með forsvarsmönnum Breiðavíkursamtakanna í forsætisráðuneytinu til þess að ræða ásættanlega lausn en eins og háttvirtir þingmenn þekkja þá voru þeir óánægðir með þá niðurstöðu sem kom úr nefnd sem fjallaði um þetta mál,“ sagði Jóhanna.
Boltinn hjá Breiðavíkursamtökunum
Á fundinum, sem haldinn var 9. mars, var lagt fram minnisblað um leiðir til lausnar. Þar er m.a. lagt til að drög að frumvarpi um sanngirnisbætur verði lagfærð og settar fram nokkrar mismunandi hugmyndir um hvernig beri að ákvarða bætur. Ein hugmynd er að setja á fót sérstaka bótanefnd vegna Breiðavíkurheimilisins og annarra sambærilegra. Þá eru settar fram hugmyndi rum sérstakan bótasjóð með framlagi ríkis, sveitarfélaga og hugsanlega einkaaðila. Tilgangur sjóðsins yrði að styrkja einstaklinga sem hefðu sætt illri meðferð í bernsku á Breiðavíkurheimilinu og öðrum sambærilegum sem rekin voru um og eftir miðja síðustu öld.
„Við höfum ekki enn fengið svar við hugmyndum okkar en ég er að vonast til að við getum lokið þessu með ásættanlegri niðurstöðu sem allra, allra fyrst. Það stendur ekki á okkur í þessu máli, að ræða við forsvarsmenn Breiðavíkursamtakanna og reyna að fá ásættanlega niðurstöðu. En boltinn er núna hjá þeim og ég vonast til að við heyrum í þeim sem fyrst og getum þá lokið þessu máli. Ég held að það sé hægt að ljúka þessu með öðrum hætti heldur en frá var gengið í nefndinni.
Og það er náttúrulega verið að skoða önnur heimili líka þannig að við þurfum að við þurfum að skoða það að niðurstaðan sem þeir fá núna sé þá að minnsta kosti ekki lakari heldur en gæti komið að því er varðar niðurstöðu hjá öðrum heimilum,“ sagði forsætisráðherra.
Enginn sómi að tilboði ríkisins
Bárður R. Jónsson segist ekki líta svo á að boltinn sé hjá Breiðavíkursamtökunum. Ekki sé hægt að byggja á þeim tillögum sem fram koma í minnisblaðinu.
Fyrir liggur vilji ríkisins til að bæta fyrir misgjörðir gagnvart Breiðavíkurdrengjunum en engin sátt er um fjárhæðir bóta. Um 150 drengir, sem dvöldu á Breiðavíkurheimilinu á árunum 1952 til 1970 gætu átt bótarétt. Meðaldvalartími hvers um sig var 21 mánuður og hafa verið nefndar tölur á bilinu 500 til 800 þúsund krónur fyrir hvern dvalarmánuð eða 10 til tæplega 17 milljónir króna.
Á fjáraukalögum voru 2008 var hins vegar samþykkt að verja 125 milljónum til bótagreiðslna, ásamt umsýslu eða rúmlega 800 þúsund krónum á mann, miðað við að 150 drengir eða afkomendur þeirra eigi bótarétt.
Formaður Breiðavíkursamtakanna segir slíka upphæð allt of lága.
„Er samfélaginu sómi að því að greiða bætur sem engu máli skipta?“ spyr Bárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna.