Enn óvíst um sumarönn

Nemendur við HÍ í setuverkfalli
Nemendur við HÍ í setuverkfalli mbl.is/Árni Sæberg

Vilji er fyrir sumarönn hjá yfirvöldum Háskóla Íslands. Spurningin er bara hvort nægilegt fjármagn fæst. Þetta segir Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, fulltrúi stúdentaráðs í háskólaráði. Fundi háskólaráðs, þar sem fjallað var um málið, lauk fyrir stundu.

Sigrún segir málið vonandi skýrast í næstu viku. „Háskólarektor mun væntanlega farið yfir málið með menntamálaráðuneytinu og stúdentaráði á næstu dögum. Ég býst við að eitthvað verði gert en það er spurning hvað hægt verði að gera mikið.“

Við blasir að þúsundir stúdenta verði án vinnu í sumar. Stúdentar við Háskóla Íslands krefjast sumarannar og efndu af því tilefni til setuverkfalls fyrir utan skrifstofu rektors í dag.

Sigrún segir nauðsynlegt að hafa próf í öllum kúrsum í ágúst til þess að stúdentar geti tekið námslán. „Það er bara spurning hversu mikið þarf að kenna eða hvort um verði að ræða fjarnám með prófum í ágúst. Þetta er útfærsluatriði og spurning um fjármagn,“ segir Sigrún sem segir marga kennara jákvæða gagnvart sumarönn.

Stúdentar voru í setuverkfalli utan við skrifstofu rektors HÍ til að leggja áherslu á kröfur um sumarönn. Setuverkfallinu var hætt eftir að fundi háskólaráðs lauk.

Í tilkynningu frá stúdentafélaginu Röskvu, sem stóð fyrir aðgerðunum, er því fagnað að skriður sé kominn á málið og háskólayfirvöld sýni stúdentum stuðning í þessu máli. Nú sé hinsvegar röðin komin að menntamálaráðuneytinu og íslenska ríkinu að sýna sinn vilja í verki en til þess að koma á sumarönnum og forða því að þúsundir stúdenta sitji eftir atvinnu- og tekjulausir í sumar þurfi að veita Háskóla Íslands viðbótarfjármagn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert