Fá aðgang að þróunartólum Microsoft

Reuters

Nemar við Háskóla Íslands geta frá og með 4. apríl fengið aðgang að öllum helstu þróunartólum Microsoft án endurgjalds. Nemar við aðra íslenska skóla á háskólastigi og framhaldsskólanemar yfir 18 ára aldri munu á næstunni fá sama aðgang.

Þetta er liður í verkefninu Dreamspark, sem er alþjóðlegt átaksverkefni Microsoft sem miðar að því að veita námsfólki sem bestan aðgang að tólum til hugbúnaðarþróunar án tillits til efnahags.

Meðal þeirra hugbúnaðarlausna sem íslenskir nemar fá aðgang að eru Visual Studio, Windows Server, SQL Server Developer, Robotics Developer Studio og Xna Game Studio, en alls eru 16 hugbúnaðarlausnir í boði á vefnum Dreamspark.com.

Flestar nýtast þær aðallega í raungreina- og tölvunarfræðinámi, en allir nemar fá aðgang að þeim og geta til að mynda notað XNA Game Studio til að þróa sína eigin tölvuleiki. Bill Gates, stofnandi Microsoft, hleypti Dreamspark af stokkunum fyrir rúmu ári og hafa nemendur um heim allan nýtt sér verkefnið til að sækja hugbúnað í milljónum eintaka. 

Dreamspark er byggt upp á svipaðan hátt og Bizspark-verkefni Microsoft, en það miðar að því að aðstoða sprotafyrirtæki í hugbúnaðargeiranum við að koma undir sig fótunum. Með Bizspark fá sprotafyrirtæki einnig aðgang að helstu þróunartólum Microsoft án endurgjalds til tveggja ára. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert