Loftnetsmastur á hliðina

Mastrið féll skammt frá flugturninum.
Mastrið féll skammt frá flugturninum. mynd/Eyjafrettir

Loftnetsmastur við flugturninn í Vestmannaeyjum lagðist á hliðina í dag. Mjög hvasst er við flugvöllinn og fer vindhraði upp undir 30 metrar á sekúndu í mestu hviðunum.

Fram kemur á vefnum eyjafréttum.is, að svo virðist vera sem tæring í botnstykki mastursins hafi leitt til þess að það gaf undan í rokinu. Í mastrinu eru loftnet fyrir samskiptabúnað turnsins auk farsímaloftneta fyrir símafyrirtækin Vodafone og Nova.

Bjarni Halldórsson, starfsmaður í flugturninum, segir að aðeins eitt loftnet í mastrinu hafi brotnað. Við prófanir hafi öll sambönd virkað og verið sé að finna út úr því hvaða samband sé á brotna loftnetinu. Hann segir að hrun mastursins hafi því óveruleg áhrif á daglega starfsemi turnsins en flest samskiptatæki turnsins eru tengd við loftnetamastur á Sæfjalli, sunnan við flugvöllinn.

Loftnet símafyrirtækjanna Nova og Vodafone eru skemmd svo farsímasambönd beggja fyrirtækja liggur niðri syðst á Heimaey. Bæði fyrirtækin hafa þó senda á fleiri stöðum í Vestmannaeyjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka