Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi að nauðsynlegt væri að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu og taka upp svonefnda fyrningarleið. Hún svaraði hins vegar ekki spurningu um hvaða áhrif slíkar breytingar hefðu á sjávarútveginn og íslenska bankakerfið.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ljóst, að Samfylkingin og Vinstrihreyfingin-grænt framboð, væru sammála um að fara svonefnda fyrningarleið við úthlutun veiðiheimilda en það mætti lesa út úr samþykktum landsfunda flokkanna.
Sagði Guðlaugur Þór, að úr því stefnan væri skýr hlytu menn að hafa skoðað hvaða áhrif hún hafi á greiðslugetu sjávarútvegsins og þar á meðal íslenska bankakerfið í ljósi þess að sjávarútvegsfyrirtækin skulduðu 400-500 milljarða í íslensku bönkunum.
Jóhanna sagði, að sjávarútvegurinn væri skuldum settur og vinda þyrfti ofan af því með ákveðnum hætti og ná sátt um fiskveiðistefnuna. Ekki væri hægt að búa við óbreytta fiskveiðistefnu, sem hyglaði örfáum kvótaeigendum á kostnað þeirra, sem þurfa að leigja veiðikvóta.