Sér fyrir endann á hrunsferlinu

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.

„Nú sér loks fyrir endann ná því hrunsferli sem hófst í október 2008. Við höfum nokkra skýra mynd af því sem þarf að gera til að hér verði heilbrigt fjármálakerfi með þokkalega rekstrarstöðu,“ sagði Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á opnum fundi viðskiptanefndar sem nú stendur yfir.

Jón Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins óskaði  eftir fundinum til að ræða viðbrögð stjórnvalda við erfiðleikum á fjármálamarkaði síðustu vikur m.a. um aðgerðir stjórnvalda gagnvart smærri fjármálafyrirtækjum og beitingu neyðarlaga gagnvart Straumi, SPRON og Sparisjóðabankanum, fjárhagslega fyrirgreiðslu til VBS og Saga Capital og fyrirheit um stuðning við nokkra sparisjóði.

Gestir fundarins eru auk viðskiptaráðherra, Gunnar Haraldsson, formaður stjórnar Fjármáleftirlitsins, og Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra sagði endalok SPRON, Straums og Sparisjóðabankans vonbrigði, þau hefðu ekki verið með þeim hætti sem hann vildi. Það væri eftirsjá að þessum fyrirtækjum, sérstaklega SPRON. Staða fjármálastofnananna hefði hins vegar verið slík að beiting neyðarlaga helgina hefði verið óhjákvæmileg.

Eigið fé neikvætt um 135 milljarða

Gylfi sagði að eiginfjárhlutfall SPRON og Sparisjóðabankans hefði verið neikvætt, langt umfram lögleg mörk. Gylfi sagði eigið fé SPRON hafa verið neikvætt um 35 milljarða króna þegar bankinn fór í þrot og hjá Sparisjóðabankanum var eigið fé neikvætt um meira en 100 milljarða króna. Straumur hefði hins vegar á pappírum sýnt góða stöðu en breska fjármálaeftirlitið hafi ætlað að grípa til aðgerða vegna útibús Straums í Bretlandi.

Gylfi sagði að endalok þessara fjármálastofnana hefðu ekki verið óvænt, um væri að ræða eftirskjálfta hrunsins í október.

Gylfi sagði að þegar endurreisn bankakerfisins lyki, yrði Ísland að mörgu leyti öfundsvert af sínu bankakerfi. Landið hefði gengið í gegnum hreinsunareld á skömmum tíma, á meðan önnur lönd reyndu að halda lífi í illa stöddum bankastofnunum.

Þá hafnaði Gylfi því að ríkið hefði bakað sér skaðabótaskyldu með yfirtökunni á Straumi, líkt og Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri hefur sagt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert