Stefnt er að því að halda Spurningakeppni fjölmiðlanna á Rás 2 hjá Ríkisútvarpinu í kringum hvítasunnu, að sögn Sigrúnar Stefánsdóttur dagskrárstjóra.
„Ég var búin að taka ákvörðun um að þessi keppni yrði ekki um páskana af sparnaðarástæðum. Það er ansi þröngt í búi og ekki síst hjá Rás 2 sem er með afskaplega þröngan fjárhag. Ég hef hins vegar orðið vör við mikinn áhuga á að henni verði fram haldið þannig að ég er búin að ræða við Ævar Örn Jósepsson spyril um að útfæra nýja útgáfu í ár,“ segir Sigrún.
Hún segir að þar sem þegar hafi verið gengið frá páskadagskránni sé gert ráð fyrir því að keppnin verði á sunnudögum fyrir hvítasunnu og að henni ljúki um hátíðina.