Stangveiðin hafin með ísreki á ánum

„Það hefur verið nánast óveiðanlegt vegna ísreks ofan úr Breiðbalakvísl síðustu þrjá, fjóra tímana en við fengum samt um tuttugu fallega birtinga áður en það byrjaði,“ sagði Ragnar Johansen, bóndi í Hörgslandi, þar sem hann var við veiðar ásamt félögum sínum í Vatnamótunum við Skaftá um kvöldmatarleytið í gær.

Ragnar sagði mikið af fiski á svæðinu og auk þeirra fiska sem veiðimenn höfðu hendur á misstu þeir marga aðra. „Það er komið blíðuveður hérna núna. Þegar áin verður búin að ryðja sig í nótt verður þetta tekið með stæl á morgun,“ sagði Ragnar.

Fjórtán punda úr Varmá

Samkvæmt hefðinni hófst stangveiðitímabilið í gær, 1. apríl. Þá hófu veiðimenn að kasta agni sínu fyrir sjóbirting í Skaftafellssýslum, þar á meðal í Tungulæk, Tungufljóti og Geirlandsá, auk Vatnamótanna. Í Minnivallalæk hófst veiðin einnig og í Varmá, og í nokkrum vötnum, þar á meðal í Meðalfellsvatni og Vífilsstaðavatni. Fyrir norðan opnuðu Litlá í Kelduhverfi og Brunná.

Lítið var að frétta hjá veiðimönnum í Meðalfellsvatni en í Varmá var talsvert líf. Þorleifur Gunnnarsson veiddi birting í Stöðvarhyl sem veiðifélagarnir töldu vega 14 pund hið minnsta. Veiðifélagarnir voru með um 15 aðra fiska á morgunvaktinni. Skylt er að sleppa öllum birtingi í Varmá.

Talsvert ísrek var í Tungufljóti í Skaftártungu en á morgunvaktinni lönduðu veiðimennirnir í opnunarhollinu engu að síður sex fiskum, frekar smávöxnum á mælikvarða þess fljóts, tvö til sex pund, en sprækum engu að síður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert