„Það hefur verið nánast óveiðanlegt vegna ísreks ofan úr Breiðbalakvísl síðustu þrjá, fjóra tímana en við fengum samt um tuttugu fallega birtinga áður en það byrjaði,“ sagði Ragnar Johansen, bóndi í Hörgslandi, þar sem hann var við veiðar ásamt félögum sínum í Vatnamótunum við Skaftá um kvöldmatarleytið í gær.
Ragnar sagði mikið af fiski á svæðinu og auk þeirra fiska sem veiðimenn höfðu hendur á misstu þeir marga aðra. „Það er komið blíðuveður hérna núna. Þegar áin verður búin að ryðja sig í nótt verður þetta tekið með stæl á morgun,“ sagði Ragnar.
Lítið var að frétta hjá veiðimönnum í Meðalfellsvatni en í Varmá var talsvert líf. Þorleifur Gunnnarsson veiddi birting í Stöðvarhyl sem veiðifélagarnir töldu vega 14 pund hið minnsta. Veiðifélagarnir voru með um 15 aðra fiska á morgunvaktinni. Skylt er að sleppa öllum birtingi í Varmá.
Talsvert ísrek var í Tungufljóti í Skaftártungu en á morgunvaktinni lönduðu veiðimennirnir í opnunarhollinu engu að síður sex fiskum, frekar smávöxnum á mælikvarða þess fljóts, tvö til sex pund, en sprækum engu að síður.