Um 300 sagt upp í hópuppsögnum

Öllum starfsmönnum Frjálsa fjárfestingabankans var sagt upp um mánaðamótin
Öllum starfsmönnum Frjálsa fjárfestingabankans var sagt upp um mánaðamótin Árni Sæberg

Í mars bárust Vinnumálastofnun 7 tilkynningar um hópuppsagnir þar sem sagt var upp samtals 357 einstaklingum. Þrjár tilkynningar voru úr fjármálastarfsemi með samtals 84% þeirra sem sagt var upp með þessum hætti, þrjár uppsagnir voru úr verslun og viðgerðum og ein uppsögn úr mannvirkjagerð. 

Hins vegar er gert ráð fyrir að hluti þeirra starfsmanna sem missti starf sitt í Spron fái vinnu við nýjan banka sem yfirtekur að hluta starfsemi Spron, því gæti heildartala endanlegra uppsagna vegna Spron lækkað um 50 manns. Einnig er nokkur óvissa með fjölda uppsagna hjá Straumi Burðarási og hvenær þær komi til framkvæmda. Heildartala uppsagna er því trúlega innan við 300 manns, að því er segir á vef Vinnumálastofnunar.

Helstu ástæður uppsagna eru rekstrarerfiðleikar, verkefnaskortur og endurskipulagning.   Ef litið er á allar tilkynntar hópuppsagnir, sem borist hafa síðustu mánuði og koma til framkvæmda á árinu 2009, má sjá að flestir eru að missa vinnu í febrúar, eða yfir 1.100 manns, rúmlega 1.000 í janúar, tæplega 500 manns misstu vinnuna í byrjun mars, ríflega 200 munu missa vinnuna í byrjun apríl og rúmlega 100 manns í maí, og á bilinu 70-95 í júní til september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert