Önnur umræða um stjórnarskipunarlög eru hafin á Alþingi eftir miklar og heitar umræður um fundarstjórn þingforseta. Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og formaður sérnefndar um stjórnarskrármál, mælir nú fyrir breytingum á stjórnarskipunarlögum.
Sjálfstæðismenn óskuðu eftir tvöföldum ræðutíma í annarri umræðu og var orðið við því, þannig að búast má við að umræðan dragist á langinn.
Meðal tillagna í frumvarpinu er að sett verði á stofn stjórnlagaþing, sem endurskoði stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Í áliti meirihluta sérnefndarinnar segir, að í reynd sé þinginu þó ætlað að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá og endurskoðun stjórnarskrárinnar sé einungis liður í því starfi. Samkvæmt tillögu nefndarimeirihlutans á að bera frumvarp um stjórnskipunarlög, sem stjórnlagaþing samþykkir, undir þjóðaratkvæði.
Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að þessarar umræðu verði minnst sem sérstaks niðurlægingartímabils á Alþingi þegar lagt sé til að Alþingi stigi til hliðar og gefi frá sér stjórnarskrárvaldið enda hefði engum dottið áður í hug, sem gengur út á þetta. „Þetta eru mikil tíðindi og ill í sögu Alþingis," sagði Björn.