Vilja aðeins breyta 79. grein stjórnarskrár

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi í dag.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta væri í fyrsta skiptið í 50 ár sem gerðar eru breytingar á stjórnarskránni án þess að um það sé þverpólitísk sátt. Það á ekki að breyta stjórnarskránni í aðdraganda kosninga til þess að afla sér pólitískra vinsælda,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, en hann boðaði ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformanni til blaðamannafundar til þess að fara yfir áherslur flokksins í þingstörfunum framundan.

„Nú eru að hefjast umræður um breytingar á stjórnarskránni. Við höfum við það athugasemdir Sjálfstæðismenn. Við teljum að það sem er mikilvægast fyrir þingstörfin núna er að ræða efnahagslegar aðgerðir. Það þarf að ræða aðgerðir til að bjarga heimilum og fyrirtækjum,“ sagði Bjarni.

Hann gagnrýndi það að keyra ætti í gegnum Alþingi breytingar á stjórnarskránni á fáeinum dögum. Sagði ljóst að ekki hefði farið fram málefnaleg og vönduð umræða um málið í þjóðfélaginu á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því frumvarpið var lagt fram.

Sagðist hann að Sjálfstæðismenn myndu óska eftir tvöföldum ræðutíma á þingi í umræðum um stjórnarskrárbreytingar. Spurður hvort það þýddi að Sjálfstæðismenn myndu beita málþófi, sagðist Bjarni ekki vera að boða það en ljóst mætti vera að þingmenn Sjálfstæðisflokks hefðu ýmislegt við breytingarnar að athuga sem þeir myndu að sjálfsögðu koma á framfæri í ræðustóli.

Bjarni lagði áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn telji vissulega þörf á að breyta stjórnarskránni með í grunduðum hætti og hafa þingmenn hans því lagt til að 79. grein stjórnarskrárinnar verði breytt þannig að ekki þurfi að rjúfa þing og fá endurnýjað samþykki Alþingis til þess að stjórnarskrárbreytingar taki gildi. Einnig kom á blaðamannafundinum fram að Sjálfstæðismenn teldu réttara að stjórnlagaþing væri aðeins ráðgefandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert