Vilja taka önnur mál framfyrir

Sjálfstæðismenn leggja til að umræða um stjórnskipunarlög verði færð aftur fyrir það sem þeir telja brýnni málefni á borð við heimild til samninga um álver í Helguvík, tekjuskatt og breytingar á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðnum sem sett er á dagskrá síðar í dag. Nú er verið að ræða fundarstjórn forseta á þingi.

Guðbjartur Hannesson, forseti þingsins, segir að fyrirliggjandi dagskrá þingsins standi. Samkvæmt henni eiga umræður um stjórnskipunarlög að vera næst á dagskrá þegar umræðum um störf þingforseta lýkur.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði ljóst að samstaða væri um það meðal þingmanna allra þingflokka nema Sjálfstæðisflokksins, að taka stjórnarskipunarlög næst til umræðu. Minnti hún á að Sjálfstæðismenn réðu ekki lengur dagskrá þingsins. Sagði hún afar óeðlilegt að Sjálfstæðismenn einir í andstöðu við meirihluta þingsins reyndu að þvinga þingheim til þess að hafa dagkrá þingsins eftir þeirra höfði. Vísaði hún þar til þeirrar hótunar sem liggi í loftinu þess efnis að Sjálfstæðismenn hyggist beita málþófi um stjórnskipunarlög. Forseti þingsins hefur orðið við þeirri beiðni Sjálfstæðismanna að tvöfalda ræðutímann, sem þýðir að fyrstu framsögur nefndarmanna verði klukkutími og annarra þingmanna 40 mínútur, en eftir það verður ræðutíminn 20 mínútur en þingmenn geta tekið til máls eins oft og þeir vilja.

Forseti þingsins hyggst verða við beiðni Sjálfstæðismanna og funda með þingflokksformönnum í hádeginu. Þar er ætlunin að ræða nánar dagskrá þingsins. Tók hann þó fram að dagskrá þingsins yrði eftir sem áður fylgt fram að hádegishléi sem hefst kl. 13.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, leggur til að boðaður fundur verði þegar haldinn eða matarhléi flýtt til þess að koma í veg fyrir ómálefnalegar umræður um störf þingsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert