17.944 á atvinnuleysisskrá

Fjöldi starfsmanna Spron var sagt upp í marsmánuði
Fjöldi starfsmanna Spron var sagt upp í marsmánuði Árni Sæberg

Alls eru 17.944 skráðir á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar í dag. Hafa verður í huga að hluti þeirra er í hlutastörfum og fær því greiddar hlutabætur. Alls eru 11.415 karlar skráðir á atvinnuleysiskrá og 6.529 konur. Á höfuðborgarsvæðinu eru skráðir 12.055 einstaklingar á atvinnuleysisskrá.

Á vef Vinnumálastofnunar kemur fram að gera verður ráð fyrir að þar af séu nálægt 1.000 manns sem ekki eru í atvinnuleit vegna breyttra aðstæðna eftir að þeir skráðu sig, en upplýsingar um slíkt berast Vinnumálastofnun yfirleitt ekki fyrr en um eða upp úr mánaðarmótum.

Þá verður að hafa í huga að sá hópur sem ekki er að fullu atvinnulaus fer stækkandi, þ.e. þeir sem eru á hlutabótum á móti hlutastarfi. Um þessar mundir er fjöldi þeirra sem eru á hlutabótum á móti hlutastarfi yfir 3.000 manns.

Í mars bárust Vinnumálastofnun 7 tilkynningar um hópuppsagnir þar sem sagt var upp samtals 357 einstaklingum. Þrjár tilkynningar voru úr fjármálastarfsemi með samtals 84% þeirra sem sagt var upp með þessum hætti.

Skráð atvinnuleysi í febrúar var 8,2% eða að meðaltali voru 13.276 manns án atvinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert