Ríflega tuttugu þúsund manns hafa óskað eftir að fá viðbótarlífeyrissparnað sinn greiddan út, frá því að ný lög voru sett sem heimila fólki að taka út allt að milljón krónur á níu mánaða tímabili. Mikill fjöldi umsækjenda á mun minna en milljón krónur til að taka út og talsvert stór hluti umsækjenda er útlendingar, að sögn Hrafns Magnússonar hjá Landssamtökum lífeyrissjóða.
Mikið hefur mætt á starfsfólki sjóðanna að undanförnu þar sem enn fleiri hafa hringt inn, bara til að athuga hvort þeir eigi nokkuð til að taka út. Virðist fólk því almennt ekki vel upplýst um hvar það eigi sparnað. Ekki er búið að reikna út meðalfjárhæðina sem hver og einn tekur út. Allir lífeyrissjóðir sem hafa samstarf um Greiðslustofu lífeyrissjóðanna greiddu út 1. apríl en aðrir verða seinna á ferðinni.
Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, kveðst ekki kvíða því að geta ekki mætt eftirspurninni um útgreiðslur, eignasafn sjóðsins sé auðseljanlegt, mikið af ríkisskuldabréfum og innlánum. Hins vegar er ekki víst að svo sé um alla sjóði, þótt viðmælendur sem rætt var við hafi sagt sína sjóði vel undir það búna að greiða út.
Flestar umsóknir tengjast því að fólk vilji greiða niður óhagstæðar skammtímaskuldir eða hafi misst vinnuna. Allur gangur er þó á því og segja viðmælendur að fólk taki peningana út af alls kyns ástæðum, t.d. til að flytja í annað sparnaðarform.