Áhrif gjaldeyrishafta rædd

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segist hafa haft miklar efasemdir um gjaldeyrishöft þegar þeim var komið á sl. haust. Þetta kom fram í umræðu sem nú fer fram utan dagskrár á Alþingi um áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. 

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, óskaði eftir umræðinni og sagði ljóst gjaldeyrishöft hefðu neikvæð áhrif á starfsemi ýmissa fyrirtækja auk þess sem menn væru fljótir að finna leiðir framhjá höftum. Varaði hann við því að íslensk atvinnulíf væri fest í gjaldeyrishöftum. Sagði hann haftabústap skapa svartamarkaðsbrask. Sagði hann ljóst að ekki væri hægt að styrkja gengi krónunnar meðan hér eru höft við lýði. 

Gylfi Magnússon sagðist ekki geta komið með mikil andsvör, enda fari sjónarmið hans og Einars saman. Sagði hann ljóst að skaðsemi hafta væru mikil, það sýndi m.a. dæmin úr Íslandssögunni. Nær undantekningarlaust hefðu höft ekki þau jákvæðu áhrif sem til væru ætlast af þeim, heldur þvert á móti. 

Gylfi minnti á að sl. haust hefði verið mjög brýnt að skapa stöðugleika um íslensku krónuna í ljósi lána í erlendri mynt. Tók hann fram að hann sennilega ekki sjálfur kosið haftaleiðina á sínum tíma, en að nú væri ljóst að Íslendingar byggju við höft og finna yrði leið út úr þeim. 

Að sögn Gylfa er verið að skoða leiðir til þess að skipta óþolinmóðu fjármagni út fyrir þolinmótt fjármagn. Það myndi leiða til minni þrýstings á svartur eða tvöfaldur gengismarkaður skapist. Sagði hann umrædd eignaskipti geta verið með ýmsum hætti, t.d. með því að skipta út eignum lífeyrisjóðanna. Einnig gæti ríkið gefið út skuldabréf til nokkurra ára, sem væru þess eðlis að þegar bréfin eru á gjalddaga væri hægt að skipta þeim út fyrir evrur. Sagðist Gylfi sannfærður um að blanda ólíkra leiða væri ákjósanlegust.

Gylfi sagði, að allar slíkar leiðir myndu hjálpa til við að draga úr þeim þrýstingi sem hér er í efnahagslífinu. Minnti hann á að endurreisn bankakerfisins og það að ná tökum á ríkisfjármálum auki stöðugleika og geri það að verkum að erlendir aðilar séu líklegri til að veðja á Ísland. 

„Stefna Sjálfstæðisflokksins hefur skemmt og eyðilagt íslenska efnahagskerfi og varð til þess að taka varð upp gjaldeyrishöft til þess að verjast snöggu gengisfalli íslensku krónunnar,“ segir Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Sagði hún gjaldeyrishöftin vera í boði Sjálfstæðisflokksins vegna þeirrar efnahagsstefnu sem flokkurinn hafi leitt hérlendis sl. 18 ár. 

Helga Sigrún Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði ljóst að ekki væri hægt að afnema gjaldeyrishöft fyrr en búið væri að aflétta þeim þrýstingi í íslensku efnahagslífi vegna jöklabréfanna. 

Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, minnti á að höft væru víðar, t.d. í sjávarútvegi. Sagði hann engu líkara en að Sjálfstæðisflokkurinn væri stærsti haftaflokkur Íslands sem vildi geta stýrt því hverjum væri úthlutað gæði landsins. Sagði hann kaldhæðnislegt að þeir aðilar sem fengu kvótann gefins á sínum tíma séu nú þeir sem braski hvað mest með gjaldeyri. 

Einar K. Guðfinnsson sagði miður að þingmenn á Alþingi fari út um víðan völl og reyni að dreifa málinu á dreif í stað þess að ræða efnisatriði fyrirspurnar hans. Kjarni málsins sagði hann vera að gjaldeyrishöftin væru aðeins hugsuð sem tímabundin lausn og finna þyrfti lausnir sem allra fyrst til þess að afnema höftin. Annars þurfi Alþingi innan nokkurra mánaða að finna nýja leið til þess að stoppa upp í götin, því menn muni ávallt finna nýjar leiðir til þess að komast framhjá höftunum með braski. Spurði hann hvort það væri ekki forgangsatriði hjá sitjandi ríkisstjórn að finna leið út úr höftunum. 

Gylfi mótmælti þeim orðum Einars að ríkistjórnin væri ekki að leita leiða til þess að vinna sig út úr höftunum. Sagði hann ríkisstjórnina vera að vinna að málinu. Sagðist hann hafa orðið hissa á því hve rólegir fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virtust vera gagnvart gjaldeyrishöftunum í nýlegri heimsókn þeirra hingað til lands þar sem samningur IMF og íslenskra stjórnvalda var til endurskoðunar og viðræðu. 

Sagði Gylfi ljóst að finna þyrfti framtíðarsýn sem leiddi þjóðina út úr gjaldeyrishöftum. Nefndi hann í því samhengi evruna, en tók fram að hann vildi ekki taka afstöðu til þess hvort upptaka hennar væri besta lausnin til framtíðar.

Enn á ný rætt um fundarstjórn þingforseta 

Utandagskrárumræðu um gjaldeyrishöft er nú lokið og hefur Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kveðið sér hljóð til þess að ræða fundarstjórn þingforseta. Rætt var um fundarstjórn þingforseta í klukkustund fyrr í dag og einnig í lengri tíma í gær. Sturla sagðist mótmæla þau orð Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns VG, þegar hún lýsti Sjálfstæðismönnum sem „gamla sjálftökuliðinu“.

Álfheiður Ingadóttir sagði óþarfi hjá Sturlu að túlka orð hennar sem svo að hún ætti við hann eða aðra þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Sagðist hún hafa verið að vísa til þess hóps manna sem staðið hefði vaktina og gengið lengst í því svartamarkaðsbrasi sem viðgengist hafi að undanförnu á gjaldeyrismarkaði. Sagði hún ljóst að sá hópur væri að braska á kostnað allra landsmanna. 

Sturla kom í pontu og sagðist fagna því að Álfheiður hafi dregið til baka orð sín og staðfest að hún hafi ekki átt, með orðum sínum, við Sjálfstæðismenn almennt. Sagði hann batnandi mönnum best að lifa. Sagði hann Sjálfstæðismenn hins vegar reiðubúna að standa vaktina hvar og hvenær sem væri.

Árni M. Mathisen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði eftir því að þingforseti beitti sér fyrir því að haldinn væru fundur í umhverfisnefnd. Sagði hann óásættanlegt að ekki væri haldinn fundur í nefndinni þó formaður nefndarinnar væri veikur, enda ætti varaformaður nefndarinnar að geta tekið stjórn fundarins að sér. Sagðist Árni lengi hafa kallað eftir því að nefndin kæmi saman til þess að ræða um loftlagsákvæðið svonefnda, sem meirihluti hefur myndast um á þingi.

Álfheiður segist ekki sjá ástæðu til þess að taka orð sín um „gamla sjálftökuliðið“ til baka, né heldur að taka til baka orð sín um afstöðu Sjálfstæðisflokksins sem hefði ekki verið reiðubúin til þess að stoppa upp í gatið þegar í ljós kom að hópur manna væri að stunda svartamarkaðsbrask með gjaldeyri. 

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það dónaskap við þjóð, þing og stjórnarskrána að flutningsmenn stjórnarskipunarlaga hefðu ekki verið viðstaddir umræðuna um stjórnarskipunarlögin í þinginu í gær. Beindi hann þeirri spurningu til forseta þingsins að hann tryggði að allir flutningsmenn yrðu viðstaddir umræðuna í dag.

Guðbjartur Hanness, þingforseti, sagði sjálfsagt að koma þessari ósk Sigurðar Kára á framfæri við flutningsmenn. 

Sigurður Kári spurði þingforseta einnig hversu lengi ætlunin væri að þingfundur stæði. Minnti hann á vinnuregluna um það að ekki séu haldnir næturfundir tvær nætur í röð. Sagði Guðbjartur að fundað yrði með þingflokksformönnum síðar í dag til þess að ræða dagskrá þingsins. Guðbjartur bar til atkvæða í þinginu tillaga þess efnis að funda mætti lengur fram eftir degi en ráð hefði verið fyrir gert. Var það samþykkt. Þar með lauk umræðu um fundarstjórn þingforseta og því er á ný hafin önnur umræða um stjórnskipunarlögin. Í ræðustól nú er Ásta Möller, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. 

Einar K. Guðfinnsson
Einar K. Guðfinnsson Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert