Ekkert skilað sér enn

Belginn heitir Gilles Romain Catherine Claessens.
Belginn heitir Gilles Romain Catherine Claessens.

Farið verður fram á gæsluvarðhald síðar í dag yfir 21 árs belgískum karlmanni sem slapp frá lögreglunni á Suðurnesjum í gær. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er enn beðið eftir að fíkniefni sem hann ber innvortis skili sér. Ekki er ljóst hvaða efni um ræðir eða hversu mikið magn.

Gilles Romain Catherine Claessens var handtekinn í Leifsstöð í gær grunaður um að hafa fíkniefni innvortis. Var lögregla að færa manninn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í gegnumlýsingu þegar hann  lagði  á flótta frá lögreglunni. Tókst honum að smeygja sér úr handjárnum.

Lögreglumenn úr sérsveit Ríkislögreglustjóra urðu varir við Belgann í miðbæ Reykjanesbæjar um sex leytið í morgun. Maðurinn reyndi að komast undan en lögreglumennirnir hlupu hann uppi og handtóku. Hann játaði að hafa reynt að flytja inn fíkniefni.

Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglu Suðurnesja, segir að vel verði kafað ofan í flótta mannsins og farið yfir verklag í kjölfarið.

Samkvæmt upplýsingum frá belgískum yfirvöldum hefur Claessens komið ítrekað við sögu lögreglu en er ekki eftirlýstur þar í landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert