Gunnar Þ. Andersen, framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Hann var valinn úr hópi 19 umsækjenda. Gunnar Þ. Andersen var kynntur fyrir starfsmönnum FME fyrir stundu.
Gunnar hefur starfað hjá Tryggingastofnun ríkisins frá 2006, fyrst sem forstöðumaður eftirlits en nú síðast sem framkvæmdastjóri Þróunar- og greiningarsviðs og staðgengill forstjóra.
Gunnar starfaði hjá Landsbanka Íslands frá 1991 til 2003, síðast sem framkvæmdastjóri alþjóða- og fjármálasviðs. Á undan því vann hann meðal annars sem stjórnandi hjá Helly-Hansen a/s í Noregi og Pepsi-Cola Company í Bandaríkjunum og sem fjárfestingarfulltrúi í fjárreiðudeild Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem hann hafði umsjón með fjárfestingum lífeyrissjóðs Sameinuðu þjóðanna.
Gunnar er með MBA gráðu frá University of Minnesota og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.