„Við höfum fengið nokkra umsækjendur, en það hætta allir við þegar þeir heyra hvar vinnan er,“ segir Karen Rut Konráðsdóttir, framkvæmdastjóri Fánasmiðjunnar á Þórshöfn.
Þar hefur verið auglýst laus staða sölumanns síðan í desember en þveröfugt við þjóðfélagsástandið gengur ótrúlega illa að manna hana. „Við höfum orðið fyrir miklum vonbrigðum. Maður heyrir nú í fréttum daginn út og daginn inn hve margir eru atvinnulausir og að ástandið sé svo slæmt, en það virðist ekki vera nógu slæmt til að fólk sé tilbúið að færa sig um set fyrir vinnu. Það vill frekar vera á bótum í Reykjavík,“ segir Karen.
Staðan, sem auglýst er, er að sögn Karenar fjölbreytt framtíðarstarf, með rúmar 300 þúsund krónur í mánaðarlaun. Nú fer í hönd annasamasti tími ársins, auk þess sem fyrirtækið stefnir í útrás á Noregsmarkað og því bráðnauðsynlegt að fá aukastarfskraft til að anna umstanginu.
Karen segist margsinnis hafa haft samband við Vinnumálastofnun til að kanna hvort þar sé ekki fólk á skrá sem mæti kröfum Fánasmiðjunnar en þaðan fást engin svör og segist hún hafa á tilfinningunni að þar hafi menn ekki tíma í neitt annað en að sinna nýskráningum.