Félagar í félagi íslenskra náttúrufræðinga, Fræðagarðs, Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga og Stéttarfélags lögfræðinga, mótmæla harðlega þeim launalækkunaraðgerðum sem Reykjavíkurborg hefur nú enn gripið til gagnvart starfsmönnum sínum, í sameiginlegri ályktun félaganna.
„Sameiginlegur félagsfundur Félags íslenskra náttúrufræðinga, Fræðagarðs, Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga og Stéttarfélags lögfræðinga, sem haldinn var þriðjudaginn 31. mars 2009, ályktar:
Félagsfundurinn mótmælir harðlega þeim launalækkunaraðgerðum sem Reykjavíkurborg hefur nú enn gripið til gagnvart starfsmönnum sínum. Með aðgerðum sínum ræðst Reykjavíkurborg nú í annað sinn á stuttum tíma á launasamsetningu, sem lögð var til grundvallar við ráðningu fjölmargra starfsmanna borgarinnar og hefur því í raun verið svipt öllum forsendum undan ráðningu þeirra.
Líkt og raunin var þegar yfirvinnu var sagt upp fyrr í vetur leggjast aðgerðir þessar mjög misþungt á einstaka starfsmenn. Bæði vegna þess að einstök svið eru misjafnlega í stakk búin til að uppfylla kröfur um sparnað sem lagðar eru til grundvallar, svo og vegna þess að forsendur aksturssamninga þeirra sem nú er sagt upp eru ólíkar. Þessi aðferðafræði er að mati fundarins ekki samboðin launagreiðanda sem gefur sig opinberlega út fyrir að halda úti jafnréttiskjarastefnu. Mannauðsstjórnun Reykjavíkurborgar hefur farið fram undir slagorðunum „einn vinnustaður“. Kjararýrandi aðgerðir síðustu mánaða hafa bersýnilega leitt í ljós að í þessu slagorði felst hins vegar allt annað en „ein launastefna“ enda er einstökum starfsmönnum gróflega mismunað eftir því hvar í borgarkerfinu þeir hafa starfsstöð sína. Jafnframt er ljóst að gagnvart mörgum starfsmanna sinna gengur borgin nú þvert á fyrri loforð um að kjaraskerðingum yrðu sett efri mörk. Félagsfundurinn mótmælir því harðlega að ekki sé gætt jafnræðis við kjararýrandi aðgerðir Reykjavíkurborgar.
Borgin kýs aftur að ráðast að afkomu starfsmanna sinna án samráðs og undir ógn hugsanlegra uppsagna, sem borgin muni grípa til fái hún ekki sínu framgengt. Með þessu stígur borgin nær heila öld aftur í tímann í samskiptum við starfsmenn sína og sýnir framkomu sem ekki getur annað en haft mjög neikvæð áhrif á afstöðu starfsmanna til vinnustaðar síns og höggvið skarð í hollustuskyldu starfsmanns við launagreiðanda.
Það er óásættanlegt að stærsta sveitarfélag landsins skuli á þennan máta ráðast ítrekað á ráðningarkjör starfsmanna, án þess að hafa í raun leitað allra annarra leiða til lausna á fjárhagsvanda borgarinnar. Borgarstjórn hefur meðal annars hafnað því að nýta lögbundna tekjustofna sína s.s. heimildir sínar til hækkunar útsvars. Þess í stað er seilst í vasa starfsmannanna og ábyrgðinni á fjárhagslegri stjórn borgarinnar þar með velt yfir á þá. Félagsfundurinn fordæmir þessi vinnubrögð. Starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa sætt gríðarlegu álagi síðustu misseri vegna tíðra meirihlutaskipta í borgarstjórn með tilheyrandi uppstokkun á stjórnskipan borgarinnar, auknu verkefnaálagi og almennri óvissu. Í ofanálag hafa þeir sætt lakari kjörum en aðrir á vinnumarkaðinum, þeir nutu ekki góðs af launaskriði góðærisins og skipa nú þann hóp sem situr einna neðst í launastiganum. Háskólamenntaðir starfsmenn Reykjavíkurborgar nutu fyrir kjararýrandi aðgerðir borgarinnar t.a.m. 5-8% lægri launa að meðaltali en starfsmenn í sambærilegum störfum hjá ríkinu. Þessi launastefna hefur verið rekin undir því yfirskyni að starfsmenn Reykjavíkurborgar byggju í staðinn við atvinnuöryggi. Fundurinn ítrekar að það hlýtur að sæta furðu að þegar á þetta atvinnuöryggi reynir skuli þeir þurfa að greiða það enn hærra verði.
Fundurinn lýsir furðu sinni á þessari framgöngu Reykjavíkurborgar, sem getur aðeins kynt undir óánægju og ófrið á vinnumarkaði sem í dag kallar á samvinnu. Aðgerðir þessar og aðferðafræði sú sem beitt er við þær brjóta flest grundvallaratriði í samskiptum aðila á vinnumarkaði og knýja launþega óhjákvæmilega til þess að sýna aukna hörku í öllum samskiptum sínum við launagreiðendur. Það er skýlaus krafa fundarins að kjörnir fulltrúar í borgarstjórn gefi þegar í stað skýrar yfirlýsingar um það hvort þeir styðja þessa framkomu gagnvart starfsmönnum borgarinnar og ef svo er, þá hvers vegna," að því er segir í sameiginlegri ályktun.