Guðbjartur Hannesson, forseti þingsins, hefur ákveðið að boða til fundar með þingflokksformönnum kl. 12:45 til þess að ræða dagskrá þingsins. Þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað óskað eftir því að umræðu um stjórnarskipunarlögin verði frestað til þess að hægt að verði að ræða atvinnumál, efnahagsmál og málefni heimilanna.
„Háttvirtir þingmenn Sjálfstæðisflokks leyfa sér að skamma slökkviliðið sem kemur á vettvang til þess að slökkva eldana sem þeir kveiktu. Við erum að taka til eftir 18 ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og varð greinilega heitt í hamsi.
Gagnrýndi hann þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir að eyða dýrmætum tíma þingsins til þess að ræða fundarstjórn forseta, en sjálfur tók hann fram að hann væri mjög sáttur við fundarstjórn forseta.
Arnbjörg Sveinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kom upp í ræðustól og minnti Lúðvík á að Samfylkingin hefði farið með yfirstjórn bankamála í aðdraganda efnahagshrunsins. Lúðvík færist því að tala um ábyrgð.
Umræðan um fundarstjórn þingsins stóð í um klukkustund. Nýhafin er áframhald á annarri umræðu um stjórnarskipunarlaga. Fyrst á mælendadagskrá er Dögg Pálsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Velti hún fyrst upp þeirri spurningu hvers vegna lagafrumvarpið héti orðskrípinu „stjórnarskipunarlög“ en ekki „stjórnskipunarlög“ eins og eðlilegt væri. Óskaði hún eftir svörum frá formanni sérnefndar um stjórnarskrármál.
Alls eru 26 þingmenn á mælendaskrá og allir eru þeir frá Sjálfstæðisflokksins. Næst á eftir Dögg talar Ásta Möller, því næst Illugi Gunnarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Sigurður Kári Kristjánsson.