Rannsaka útlán bankanna

Nefndina skipa þau Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson, sem er formaður, …
Nefndina skipa þau Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson, sem er formaður, og Sigríður Benediktsdóttir. mbl.is/Ómar

Samtals voru útlán til 100 stærstu skuldara föllnu viðskiptabankanna um helmingur heildarútlána þeirra. Rannsóknarnefnd Alþingis vinnur nú  að frekari greiningu á útlánum bankanna og þróun þessara lána með tilliti til trygginga og í hvað verið var að lána.

Þetta kom fram á blaðamannafundi nefndarinnar, sem haldinn var í dag. 

Nefndin hefur m.a. aflað gagna frá bönkunum og Fjármálaeftirlitinu, m.a. fengið skýrslur frá endurskoðendum sem falið var að skoða starfsemi bankanna síðustu misserin fyrir hrun þeirra. Er nú unnið að frekari greiningu á útlánum og annarri fyrirgreiðslu sem bankarnir veittu, sérstaklega á árunum 2007 og 2008 eða fram að falli þeirra. Þessi athugun beinist bæði að fyrirgreiðslu sem veitt var hér á landi og einnig í útibúum og  dótturfélögum sem tilheyrðu viðkomandi samstæðu.

Fram kom á fundinum, að í ljósi þess að viðskipti með hlutabréf hafa verið fyrirferðamikil í íslensku viðskiptalífi á síðustu árum fjármálafyrirtæki leikið stórt hlutverk bæði í viðskiptunum og lánveitingum til þeirra. Rannsóknarnefndin hefur  auk þess að athuga sérstaklega viðskipti með hlutabréf og stofnfjárhluti í fjármálafyrirtækjum lagt grunn að því að gera með rafrænum hætti úttekt á hlutabréfaviðskiptum í Kauphöll Íslands á síðustu árum.

Sögðu nefndarmenn, að slík athugun gefi færi á því að kanna hverjir áttu viðskipti með hlutabréfin, á hvaða tíma og fyrir hvaða verð.  Þessi athugun nefndarinnar sé meðal annars liður í því að kanna hvort ætla megi að tilteknir aðilar hafi haft áhrif á hlutabréfaverð og þá í hvaða tilgangi ætla megi að það hafi verið gert.

Heimasíða rannsóknarnefndarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert