Samgönguáætlun endurskoðuð í haust

„Endurskoðun gildandi samgönguáætlunar bíður nýs samgönguráðherra í haust,“ sagði Kristján L. Möller, samgönguráðherra á opnum fundi samgöngunefndar Alþingis.

Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks spurði hvenær þess væri að vænta að samgöngunefnd og Alþingi fengju upplýsingar um endurskoðun gildandi samgönguáætlunar. Samgönguráðherra svaraði því til að í gildi væri samgönguáætlun fyrir árin 2002 til 2010. Til hefði staðið að endurskoða áætlunina um áramót en vegna falls ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefði sú endurskoðun fallið um sjálfa sig.

Það yrði verkefni nýs samgönguráðherra að leggja fyrir þingið tillögur að endurskoðun samgönguáætlunar strax í byrjun þings næsta haust.

Sturla Böðvarsson spurði ennfremur um stöðu endurbóta á Keflavíkurflugvelli. Þar biðu brýnar úrbætur á NA-SA flugbrautum. Samgönguráðherra sagði að til væru 250 milljónir króna sem teknar hefðu verið frá í það verk en upphæðin dygði hvergi nærri í þetta umfangsmikla verk. Ráðherra svaraði því ekki hvenær yrði ráðist í verkið eða hvernig það yrði fjármagnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert