Sex milljarða framkvæmdir boðnar út

„Þrátt fyrir sex milljarða króna niðurskurð á framlögum til samgönguframkvæmda vegna efnahagshrunsins, verður árið 2009 næst mesta framkvæmdaár í sögunni,“ sagði Kristján L. Möller samgönguráðherra á opnum fundi samgöngunefndar Alþingis sem nú stendur.

Fundurinn er haldinn að beiðni Sturlu Böðvarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Á fundinum er rætt um framkvæmd samgönguáætlunar, áform um útboð og fjármögnun þeirra og tillögur ráðuneytis um frestun framkvæmda vegna lækkunar framlaga á fjárlögum.

Gestir fundarins eru Kristján Möller samgönguráðherra, Ragnhildur Hjaltadóttir og Karl Alvarsson frá samgönguráðuneyti og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.

Samgönguráðherra sagði verksamninga upp á 15 milljarða króna í gildi og að áformuð væru ný útboð vegna samgönguframkvæmda upp á sex milljarða króna. Nokkur þeirra verka teygðu sig inn á árin 2010 og 2011.

Til viðhalds vega er ætlaður 5,1 milljarður króna og til þjónustu við vegi landsins 3,7 milljarðar.

Til stofnframkvæmda á flugvöllum landsins fara 300 milljónir króna.

Samgönguráðherra sagði 1.380 milljónir fara í hafnarframkvæmdir, miljarður færi í ferjur hringinn í kringum landið og 343 milljónir til sérleyfisbíla.

Kristján Möller sagði að mörgum verkefnum yrði frestað vegna efnahagsástandsins en mörgum verkanna hefði verið frestað vegna ágreinings- og dómsmála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert