Í dag verður tekin fyrsta skóflustunga að nýbyggingu Samtaka aldraðra við Sléttuveg í Reykjavík. Í húsinu verða 58 íbúðir og hafa um tveir þriðju hlutar þeirra nú þegar verið seldir, að sögn Erlings Garðars Jónssonar, formanns Samtaka aldraðra.
„Það þýðir ekkert fyrir okkur frekar en þjóðina í heild að sitja með hendur í skauti þótt það kreppi að, og bíða eftir einhverju kraftaverki,“ segir Erling. „Við teljum að það sé ekki einungis samfélagsleg nauðsyn að byggja íbúðir fyrir aldraða, heldur sé hér um að ræða bráðnauðsynlegt verkefni fyrir atvinnulífið. Áætlað er að framkvæmdirnar skaffi vinnu fyrir um 110 manns á byggingartímanum. Það munar um það í núverandi ástandi.“
Að sögn Erlings var undirbúningur hinna fyrirhuguðu framkvæmda Samtaka aldraðra við Sléttuveg kominn vel á veg þegar bankarnir hrundu í októbermánuði á síðasta ári. Segir hann að stjórn samtakanna hafi verið að yfirfara þjónustusamning vegna þeirra þegar hörmungarnar dundu yfir. Mikil óvissa um framhaldið hafi þá skapast.„Við vorum hins vegar búin að fjárfesta í undirbúningnum, greiða gatnagerðargjöld og annað sem þurfti að greiða, vel á annað hundrað milljónir króna. Þetta þýddi að við urðum að kanna málið til fulls. Við ræddum við alla þá sem höfðu sótt um íbúð og niðurstaðan varð að halda áfram. Ég held að ekkert annað hafi komið til greina.“
Húsin sem Samtök aldraðra hafa staðið fyrir byggingu á eru Akraland 1 og 3, Bólstaðarhlíð 41 og 45, Dalbraut 18, 20, 14 og 16, Aflagrandi 40, Sléttuvegur 11, 13, 19, 21 og 23.
Núverandi íbúðir sem Samtök aldraðra hafa staðið fyrir byggingu á eru tæplega 400 talsins.