Skattstjórinn í Reykjavík var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknaður af kröfu Borgars Þórs Einarssonar um að viðurkennt yrði að birting álagningarskrár væri ólögmæt og bryti í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Var Borgari gert að greiða skattstjóranum 250 þúsund krónur í málskostnað.
Borgar byggði málið á því að opinber birting álagningarskrár, þar sem tilgreindir eru þeir skattar sem á hann hafa verið lagðir og þar með upplýst um tekjustofn hans gegn vilja hans, sé brot á rétti hans til að njóta friðar um einkahagi sína. Sá réttur sé tryggður í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Segir í niðurstöðu dómara að samkvæmt lögum um tekjuskatt eigi skattstjórar að leggja fram til sýnis álagningu á skattaðila í sínu umdæmi. Ákvæði um framlagningu á skattskrá hafa verið í lögum hér á landi allt frá því fyrst voru sett lög um tekjuskatt á árinu 1921.
Dómurinn tók undir þau rök Borgars að fjárhagsupplýsingar um hann geti verið viðkvæmar persónuupplýsingar, sem njóti verndar víða í löggjöfinni, ekki síst 71. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt er á það fallist að birting slíkra upplýsinga geti verið mönnum sérlega íþyngjandi og falið í sér skerðingu á friðhelgi um einkalíf þeirra.
„Þótt fallast megi á það með stefnanda að margt hafi breyst frá tíð fyrstu laga um tekjuskatt árið 1921, bæði við öflun upplýsinga og skatteftirlit, en ekki síður á sviði mannréttinda, verður ekki framhjá því horft að almenni löggjafinn hefur samt ekki talið ástæðu til að hrófla við því ákvæði skattalaga að álagningarskrár skuli lagðar fram til sýnis. Af því verður aðeins sú ályktun dregin að mat löggjafans á nauðsyn þess að almenningi sé gefinn kostur á að kynna sér álagningu skatta annarra gjaldenda sé hið sama og fyrr," að því er segir í niðurstöðu dómsins.