Í dag var undirritað samkomulag milli stjórnvalda og fulltrúa allra lánveitenda fasteignaveðlána hér á landi um samræmingu úrræða fyrir einstaklinga og heimili sem eru í greiðsluerfiðleikum vegna fasteignaveðlána.
Með samkomulaginu er leitast við að tryggja að allir lántakendur fasteignaveðlána fái notið sambærilegra greiðsluerfiðleikaúrræða og Íbúðalánasjóður veitir viðskiptavinum sínum. Gerð samkomulagsins er í samræmi við verkefnaskrá ríkistjórnarinnar um aðgerðir í þágu heimila.
Samkomulagið var undirritað af Ástu R. Jóhannesdóttur félags- og tryggingamálaráðherra, Gylfa Magnússyni viðskiparáðherra og Guðmundi Bjarnasyni framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs annars vegar og Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Hrafni Magnússyni framkvæmdastjóra Landssamtöka lífeyrissjóða, og Hlyni Jónssyni formanni skilanefndar SPRON hins vegar.