Annar mannanna, sem handteknir voru í Vestmannaeyjum í fyrrinótt vegna íkveikju í rútubifreið, er slökkviliðsmaður, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Mennirnir hafa nú verið úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald og voru þeir yfirheyrðir í gær.
Rannsókn málsins gengur að sögn vel en lögreglan í Vestmanneyjum vill ekki gefa upp hvort játning sé fengin í málinu. Tryggvi Kr. Ólafsson rannsóknarlögreglumaður segir ekkert styðja að mennirnir tengist öðrum íkveikjumálum í bænum. Krafist var svona langs varðhalds svo að mennirnir, sem eru um tvítugt, gætu ekki haft áhrif á vitnin í málinu.