Spurst fyrir um sumarannir á Alþingi

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurðist á Alþingi fyrir um það hvort lausn væri í sjónmáli varðandi óskir háskólanema um sumarannir. Minnti hún á að nám væri vinna og að til mikils væri að vinna að koma á sumarönnum til þess að bregðast við yfirvofandi atvinnuleysi háskólafólks.

Einar Már Sigurðarson, formaður menntamálanefndar, sagðist hafa fundað með fulltrúum allra háskóla nýverið til þess að reyna að finna lausn á málinu. Sagði hann þegar hafa komið fram að Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst hygðust svara kalli og bjóða upp á sumarannir. Hins vegar væri ljóst af svörum annarra háskóla að ekki væri hægt að taka upp sumarannir nema til komi aukið fjármagn frá ríkinu. 

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist styðja það eindregið að teknar væru upp sumarannir við Háskóla Íslands. Sagði hann gagnrýnivert hjá sitjandi ríkisstjórn að einbeita sér að breytingum á stjórnarskránni í stað þess að einbeita sér að lausnum sem gagnast gætu atvinnulífinu og heimilum landsins. Líkti hann ráðherrum ríkisstjórnarinnar við Neró sem spilaði á fiðlu meðan Róm brann, því nú væri fyrirtækin og heimilin í landinu að brenna meðan meirihlutinn setti alla sína orku í gæluverkefni. Sagði hann ráðherrana spila við falskan undirleik Framsóknarflokksins.

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, þakkaði Ragnheiði fyrir að setja málið á dagskrá með fyrirspurn sinni. Sagði hann ekkert væri en að ungt fólk gangi um án atvinnu og tók fram að ríkisstjórnin væri að leita lausna. Benti hann á að skoða þyrfti ýmsa kosti við það að skapa atvinnu t.d. við skógrækt. Sagði hann nauðsynlegt að allir aðilar ynnu saman, þ.e. ríkið, háskólarnir og LÍN. 

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kallaði eftir afstöðu Katrínar Jakobsdóttir menntamálaráðherra varðandi sumarannir. Sagði hann það afar gagnrýnivert hversu mjög ríkisstjórnin og ráðherra drægju lappirnar í þessu máli. Sagði hann það lágmark að ráðherra hefði skoðun á málefninu, en svo virtist ekki vera.  Sagði hann gagnrýnivert að ekki lægi nú þegar fyrir úttekt á fyrirhuguðum aukakostnaði ríkisvaldsins við að koma á sumarönnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert