Náttúruverndarsamtök Íslands telja, að Íslandi sé skylt að leggja tillögur um hvalveiðikvóta fyrir vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins áður en þeir eru gefnir út.
Þetta kemur fram í bréfi, sem samtökin hafa sent Steingrími J. Sigfússyni, sjávarútvegsráðherra, í dag.
Náttúruverndarsamtökin segja í bréfinu, að haldi Ísland því fram að hérlend stjórnvöld geti veitt leyfi til hvalveiða beri Íslandi vissulega að hlíta öðrum reglum sem ráðið hefur sett og Ísland hafi enga fyrirvara gert við.
Ásta Einarsdóttir, lögmaður sjávarútvegsráðuneytisins, sagði hins vegar við mbl.is í dag, að íslenskum stjórnvöldum sé ekki skylt að bera ákvörðun um hvalveiðileyfi í atvinnuskyni undir vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins.