Gunnar Þ. Andersen, var í morgun ráðinn forstjóri FME en hann var valinn úr hópi 19 umsækjenda.
„Þetta er mikið traust sem mér er sýnt og mikill heiður, en jafnframt mikil áskorun. Það er mörg erfið verkefni framundan og starfsemin er í dag örlítið breytt frá því sem hún á að vera samkvæmt skólabókunum, það er að segja fyrirbyggjandi. Nú eru úrvinnsla og rannsóknir verkefni FME. En þetta tekur allt endi og markmiðið er að endurreisa fjármálakerfi Íslands og endurvinna traust erlendis.“
Gunnar segist ekki kvíða nýju starfi. Til þess hafi hann engan tíma. Nú sé að vinda sér í verkin.
„Það þarf að hraða úrvinnslu mála og það þarf að styðja við starfsmenn svo þeir geti gert það. Starfsfólkið er undir miklu álagi, störf þess eru vanmetin og aldrei ofmetin. Það þarf að sjá til þess að starfsfólkið hafi þau tæki og tól sem þarf til að vinna málin og klára þau eins hratt og hægt er í þeim tilgangi að byggja upp fjármálakerfi landsins,“ segir Gunnar.
Þegar það er komið þá segir Gunnar næsta skref að endurheimta traust erlendis, vinna Ísland í álit hjá erlendum fjármálafyrirtækjum og matsfyrirtækjum, sem sé stórt verkefni út af fyrir sig.
„En grunnurinn, heimavinnan sjálf verður fyrst að fara fram og sú vinna verður að vera trúverðug. Það þarf að efla FME a.m.k. tímabundið. Ég er ekki kominn svo langt að geta útlistað það eftir rúmlega klukkutíma veru á nýjum vinnustað.“
Gunnar Andersen hefur starfað hjá Tryggingastofnun ríkisins frá 2006, fyrst sem forstöðumaður eftirlits en nú síðast sem framkvæmdastjóri Þróunar- og greiningarsviðs og staðgengill forstjóra. Gunnar starfaði hjá Landsbanka Íslands frá 1991 til 2003, síðast sem framkvæmdastjóri alþjóða- og fjármálasviðs. Á undan því vann hann meðal annars sem stjórnandi hjá Helly-Hansen a/s í Noregi og Pepsi-Cola Company í Bandaríkjunum og sem fjárfestingarfulltrúi í fjárreiðudeild Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem hann hafði umsjón með fjárfestingum lífeyrissjóðs Sameinuðu þjóðanna. Gunnar er með MBA gráðu frá University of Minnesota og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.
Gunnar segir fyrri reynslu sína nýtast við rannsókn og úrlausn erfiðra mála.
„Ég hef reynslu af erfiðum útlánamálum, var í Landsbankanum í tæp 12 ár og fékkst við útlánamál allan þann tíma, stýrði úrvinnsluhópi um tíma þannig að ég þekki slík mál. Þá þekki é glíka til í fyrirtækjarekstri og öðrum geirum og það hefur allt nýst mér vel og mun nýtast mér í nýju starfi,“ segir Gunnar Þ. Andersen sem tekur við FME rétt eftir páska.