„Ef við fáum þau leyfi sem til þarf frá borginni, byggingarleyfi og annað, þá mætti hefja framkvæmdir við byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni þegar á þessu ári,“ sagði Kristján L. Möller, samgönguráðherra á opnum fundi samgöngunefndar Alþingis.
Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs spurði samgönguráðhera um stöðu innanlandsflugs og samgöngumiðstöðina. Jón sagði það sína skoðun að Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera í Vatnsmýrinni.
Kristján Möller, samgönguráðherra sagðist binda vonir við að fundur með borgarstjóra sem fyrirhugað væri að halda, skýrði stöðu flugvallarmálsins og þar með samgöngumiðstöðvar. Kristján sagði að áformuð bygging hefði verið minnkuð, nú væri áformað að byggja 3.500 fermetra samgöngumiðstöð. nú stæði á svari Reykjavíkurborgar og leyfisveitingum. Að því fengnu mætti hefjast handa á þessu ári en gert væri ráð fyrir einkaframkvæmd vegna byggingar samgöngumiðstöðvarinnar.