Barack Obama Bandaríkjaforseti lýsti miklum áhuga á nánara samstarfi Íslands og Bandaríkjanna á sviði jarðhitavinnslu á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem haldinn var Strassborg-Kehl um helgina. Obama átti viðræður við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, um málefnið.
Obama sagði ríkisstjórn sína mjög einbeitta í því að þróa endurnýjanlega orkugjafa til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og skapa ný græn störf.
Áður en leiðtogafundinum lauk útnefndi Obama forseti einn af helstu ráðgjöfum sínum sem sérstakan tengil skrifstofu sinnar í Hvíta húsinu við Ísland á þessu sviði.
Íslendingum þakkað frumkvæðið
Í ræðu á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Strassborg-Kehl um helgina lagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra áherslu á að við þróun nýrrar framtíðarsýnar bandalagsins yrði sérstaklega tekist á við vaxandi mikilvægi norðurslóða og heimskautasvæðanna.
Össur benti á að vegna hlýnunar loftslags myndi innan skamms opnast skipaleið milli Kyrrahafs og Atlantshafs. Í kjölfarið myndu stórauknir vöruflutningar milli heimsálfanna hefjast um Norður-Íshafið.
Sömuleiðis myndi bráðnun heimskautaíssins opna ný svæði þar sem líklegt væri að vinnsla náttúruauðlinda, svo sem olíu og gass hæfist í framtíðinni. Össur varaði við því að ýtt yrði undir hernaðarleg umsvif á norðurslóðum en kvað nauðsynlegt að bandalagsríkin byggju sig undir frekara hlutverk á norðurslóðum í tengslum við aukna umferð og nýtingu svæðanna á næstu áratugum.
Í lokaályktun fundarins er Íslendingum sérstaklega þakkað frumkvæði í umræðum um öryggi á norðurslóðum.
Stuðningur við Rassmussen
Á lokuðum fundi leiðtoga bandalagsins tókst samkomulag um kjör Anders Fogh Rassmussen forsætisráðherra Dana sem næsta framkvæmdastjóra samtakanna. Í umræðum lýsti Össur Skarphéðinsson fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar eindregnum stuðningi við framboð hans.