Breska lögreglan, Scotland Yard, tapaði 30 milljónum punda með falli íslensku bankanna. Setti Scotland Yard fé sitt aftur inn á reikning hjá Landsbankanum nokkrum vikum eftir að hafa tekið allt fé út af samskonar reikningum samkvæmt ráðleggingum fjármálasérfræðings lögreglunnar.
Að sögn breska blaðsins Observer tók Scotland Yard allar fjárfestingar sínar í Landsbankanum út í apríl á síðasta ári í samræmi við ráðleggingar féhirðis síns, Ken Hunt. Strax í júní, aðeins nokkrum vikum síðar voru 10 milljónir punda svo lagðar inn á reikninga í bankanum aftur án þess að féhirðirinn væri látinn vita. 20 milljónir punda til viðbótar voru svo lagðar inn á reikninga bankans 23. september, nokkrum dögum fyrir hrunið.
Þessar upplýsingar koma fram í tveimur opinberum skýrslum og er málið, að sögn Observer hið vandræðalegasta fyrir borgarstjóra Lundúna, Boris Johnson, sem er yfirmaður stjórnar lögreglunnar. Sætir stjórnin mikilli gagnrýni í skýrslunni fyrir skort á skýrum verklagsreglum við yfirsýn fjárfestinga.
„Þetta er algjört stórslys,“ sagði Jenny Jones, sem situr í stjórninni fyrir hönd Græna flokksins. „Þetta er hræðileg eyðsla á fjármunum og sýnir hið raunverulega vandamál við fyrirkomulagið. Opinber stofnun á ekki að geta fjárfest fyrir 30 milljónir punda án þess að féhirðirinn viti nákvæmlega hvað er að gerast.“
Stjórn lögreglunnar fjárfesti fyrst í Landsbankanum í febrúar í fyrra vegna þeirra góðu vaxta sem bankinn bauð. Lögreglan vissi hins vegar í apríl af neikvæðu mati Fitch matsfyrirtækisins á bankanum.