Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók sjö manns úr hópi 20-30 sem mótmæltu við heimili forstjóra Útlendingastofnunar í dag. Mótmælin voru að sögn vitna friðsöm, þar til lögregla bað mótmælendur um að fara. Sjö sinntu ekki fyrirmælum lögreglu og voru í kjölfarið handtekin. Ekki kom til átaka.
Boðað var til mótmæla fyrir helgi. Hist var við Hamraborg í Kópavogi klukkan 15 og gengið þaðan til heimilis Hauks Guðmundssonar, forstjóra Útlendingastofnunar. Lögregla var með viðbúnað vegna mótmælanna. Í tilkynningu segir að verið sé að mótmæla meðferð íslenskra stjórnvalda á hælisleitendum á Íslandi.
„Forstjóri Útlendingastofnunar ber ábyrgð á því hvernig komið er fram við flóttamenn sem leita hælis á Íslandi. Flóttamenn fá plagg á íslensku um brottvísun, er neitað um túlka, og neitað um lögbundinn étt um 15 daga áfrýjunarfrest til dómsmálaráðuneytisins. Þetta kom fram á fundi með dómsmálaráðherra mánudaginn 30. mars,“ segir á vefsvæðinu Tilkynningu.