Álfheiður Ingadóttir, þingkona Vinstri grænna, leggst eindregið gegn samþykkt frumvarps um fjárfestingasamning vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík. Samningurinn er talinn vera forsenda fyrir því að fjármögnun fáist til þess ljúka uppbyggingu álversins, sem þegar er hafin. Iðnaðarnefnd Alþingis hefur frumvarpið nú til meðferðar en þar er Álheiður varaformaður, en Katrín Júlíusdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, formaður.
Í nefndaráliti sínu segir Álfheiður að hún sé á móti frumvarpinu, meðal annars vegna efnahagslegrar óvissu um áhrif þess og auk þess sé ekki ljóst hversu mikil umhverfisáhrifin verða af álverinu. Samningurinn geri ráð fyrir álveri með framleiðslugetu upp á 360 þúsund tonn á ári en ekki 250 þúsund, eins og umhverfismat gerði ráð fyrir. Þá segir Álfheiður að aðeins liggi fyrir heimildir fyrir losun sem svarar 150 þúsund tonna framleiðslu þannig að væntingar um fjölda nýrra starfa og arðsemi framkvæmdarinnar séu ekki byggðar á raunhæfum forsendum.
Samningurinn gerir ráð fyrir um 16,2 milljóna dollara króna afslætti frá sköttum og gjöldum. Álfheiður segi það óverjandi, ekki síst í ljósi þess að mikil óvissa sé nú á mörkuðum með ál í heiminum.
Samningurinn felur einnig í sér vörn gegn hækkun umfram 15 prósent tekjuskatthlutfall í 20 ár. Álfheiður segir þetta óréttlætanlegt gagnvart öðrum iðnaði í landinu. „Þetta skattaskjól er óverjandi miðað við efnahagsástandið og þann skuldaklafa sem hvílir á þjóðinni og því mun ég leggja til – ef frumvarpið kemur til afgreiðslu á þessu þingi – að hámark tekjuskattshlutfallsins verði hækkað í 18% til samræmis við önnur álver á landinu,“ segir í tilkynningu frá Álfheiði vegna sérálits hennar.