Verð á amfetamíni hefur snarhækkað samkvæmt eftirliti sem SÁÁ hefur með markaðsverði á fíkniefnum. Grammið kostar nú tæplega 7.000 krónur en í lok febrúar mánaðar var það rúmlega 5.500 krónur. Verð á kannabisefnum stendur í stað, þrátt fyrir að lögreglan hafi gert mikið af efnum upptæk. Fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur stöðvað kannabisræktun á hverjum staðnum á fætur öðrum að undanförnu, meðal annars í íbúðarhúsum í Úlfarsárdal og í Hafnarfirði.
Verðmælingarnar byggja á upplýsingum frá innrituðum sjúklingum og hversu mikið þeir greiddu fyrir efnin. Amfetamínið hefur hækkað mikið í verði sé horft til sama tíma í fyrra en þá gáfu athuganir SÁÁ til kynna að grammið kostaði rúmlega 4.000 krónur.