„Ég fæ ekki betur séð en að rústa eigi öllum þeim árangri sem náðst hefur í íslenskum sjávarútvegi með þessum tillögum Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum,“ segir Guðrún Lárusdóttir, útgerðarkona hjá Stálskipum í Hafnarfirði, í viðtali við Útveginn. Hún lýsir vonbrigðum með þá fljótaskrift sem henni finnst einkenna stefnumótun flokksins í þessum málaflokki.
Guðrún setur stórt spurningamerki við hugmyndir Samfylkingarinnar um stofnun Auðlindasjóðs og spyr hvenær opinberir sjóðir, sem blóðmjólkað hafi atvinnuvegina, getað ráðstafað fjármunum betur en þeir aðilar sem vinna í atvinnugreininni.
Þá spyr Guðrún Lárusdóttir hvort menn séu búnir að gleyma sjóðakerfi fortíðarinnar.
„Á að hefja hér ríkisútgerð í anda bæjarútgerðanna forðum daga? Hafa menn ekkert lært?,“ spyr Guðrún.
Hún segist gáttuð á þeim tillögum sem komu fram í sjávarútvegsstefnu flokksins, sem samþykkt var um fyrri helgi undir yfirskriftinni „sáttagjörð um fiskveiðistefnu.“
„Sáttagjörð í nafni hverra? Af þessu plaggi að dæma bíður ekki björt framtíð þessarar undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar. Ef innkalla á atvinnuréttindi þeirra sem nú starfa í sjávarútvegi er fróðlegt að fá svör við því hvernig á að útdeila þeim á ný. Á að leigja núverandi útvegsmönnum veiðiheimildir sem þeir hafa nú þegar keypt?,“ spyr Guðrún Lárusdóttir í samtali við Útveginn.