Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þvingaði bifreið sem hún elti út af Víkurvegi í Grafarvogi eftir æsilega eftirför í kvöld. Ökumaður bifreiðarinnar var handtekinn, ómeiddur. Að sögn lögreglu er ekki vitað hvað manninum gekk til. Hann var einn í bílnum.
Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra lögreglu höfuðborgarsvæðisins hófst eftirförin á Bústaðavegi. Þar sinnti maðurinn ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og ók greitt sína leið. Maðurinn ók hratt og víða um Austurborgina. Sífellt fleiri lögreglubílar tóku þátt í eftirförinni enda var maðurinn talin skapa mikla hættu með aksturslagi sínu. Spurður hvort ekki skapist meiri hætta með fleiri lögreglubílum sagði varðstjórinn, að bílarnir væru einnig til þess að vara aðra ökumenn við hættunni.
Maðurinn var að lokum þvingaður út af veginum og slapp án teljandi meiðsla. Hann var í kjölfarið fluttur niður á lögreglustöð þar sem bíður hans yfirheyrsla. Varðstjórinn þakkaði fyrir að ekki fór illa og manninum var komið af götunni áður en hann olli tjóni á mönnum eða eignum.
Að sögn sjónarvotta voru á milli 5-10 lögreglubílar notaðir við eftirförina. Varðstjórinn sagðist ekki hafa töluna, en það hafi ábyggilega ekki verið tíu bílar.